Skilmálar um afnot Víðernakortsins
1. Víðernakortið útgáfa 1.1
1.1 Víðernakortið er þróað af vísindafólki og öðrum sérfræðingum á Íslandi og Bretlandi á árunum 2019 til 2024 og hefur verið kynnt á alþjóðlegum ráðstefnum, Wild12 í Bandaríkjunum og þingi IUCN Environmental Law í Oslo og einnig á Umhverfisþingi, ráðstefnu Vatnajökulsþjóðgarðs um víðerni og fjölda annarra opinna funda á Íslandi.
1.2 Fyrsta útgáfa Víðernakortins, eða Víðernakortið 1.1, kom út 2024 og felur í sér fyrstu kortlagningu óbyggðra víðerna Íslands gerðri samkvæmt viðmiðum náttúruverndaralaga nr. 60/2013 með síðari breytingum og byggir á grunni Hvítbókar um náttúru Íslands sem gefin var út af íslenskum stjórnvöldum 2011 og friðlýsingarflokkum sem samræmast verndarflokkum Alþjóðanáttúruverndarsambandsins, IUCN, samkvæmt þeim lögum.
1.3 Víðernakortið er byggt á stafrænum gögnum frá eftirtöldum aðilum
1.3.1 Náttúrufræðistofnun (áður Landmælingar Íslands)
1.3.2 Land og skógur (áður Landgræðslan)
1.3.3 Landbúnaðarháskóli Íslands („Nytjalandsgrunnur")
1.3.4 Vegagerðin
1.3.5 Landsvirkjun
1.3.6 OpenStreetMap, með ODbl leyfi
1.3.7 Gervihnattamyndir frá © Mapbox
1.3.8. Landsnet
1.3.9. ArcticDEM
1.4 Áður en Víðernakortið var gefið út opinberlega var það notað í tilraunaskyni af Landmælingum Íslands, Landsneti og verkfræðistofunni EFLU í nokkrum verkefnum á sviði skipulags og einu umhverfismati framkvæmdar. Auk þess nýttu faghópar 1 og 2 í fimmta áfanga rammaáætlunar skv. lögum nr. 48/2011 og Náttúrufræðistofnun Íslands sér Víðernakortið fyrir fyrstu útgáfu þess.
1.5 Aðferðarfræði Víðernakortins er lýst í ritrýndri grein í alþjóðlega tímaritinu Land í febrúar 2023.
1.6 Víðernakortið er ætlað stjórnvöldum og einkaaðilum við skipulagsgerð sveitarfélaga og í umhverfismati framkvæmda skv. lögum nr. 111/2021. Víðernakortinu er ætlað að vera til upplýsinga fyrir stjórnvöld við stefnumótun um verndun landslags og aðra landnotkun í skilningi 73. gr. a laga nr. 60/2013. Víðernakortið er einnig ætlað fræðimönnum og áhugafólki.
1.7 Víðernakortinu má hlaða niður sem .shp og GeoTIFF skrám af vefsíðunni vidernakort.is. Þar er einnig að finna jpg mynd í hárri upplausn af litakóðuðu kortinu.
1.8. Hægt er að skoða Víðernakortið án þess að hlaða því niður á vefsíðum map.is og vefsja.is.
1.9 Víðernakortið 1.1 merkir í skilmálum þessum vefsíðan sjálf, hugbúnaður, forrit og allar upplýsingar og gagnagrunnar að baki.
2. Afnot
2.1 Öllum er heimilt að hlaða niður Víðernakortinu og teljast með því hafa samþykkt skilmála þessa.
2.2 Við hvers konar birtingu Víðernakortsins 1.1 eða hluta þess skal ávallt geta höfundar á eftirfarandi hátt: Víðernakortið 1.1. Wildland Research Institute og ÓFEIG.
2.3 Notendum er óheimilt að breyta Víðernakortinu.
2.4 Notkun Víðernakortsins 1.1 er óheimil eftir að ný útgáfa hefur komið út og skuldbinda notendur þess sig til að nota síðari útgáfur kortsins, þegar þær verða gefnar út.
2.5 Notendur Víðernakortsins skulu afhenda höfundarréttarhöfum gögn um breytingar á óbyggðum víðernum sem hljótast af framkvæmdum sem skerða óbyggð víðerna eða með aðgerðum til endurheimtar óbyggðra víðerna.
2.6 Notendur Víðernakortsins eru hvattir til að koma með ábendingar um hvað betur megi fara, svo unnt sé að koma leiðréttingum að við næstu útgáfu Víðernakortsins eða aðra uppfærslu þess.
2.7 Við birtingu Víðernakortsins og tilvísana til þess í fræði- eða vísandagreinum skal geta vísindalegs framlags höfundarréttarhafa eins og tíðkanlegt er í vísindaheiminum.
3. Höfundarréttur
3.1 Um höfundarrétt að Víðernakortinu gilda höfundalög nr. 73/1972. Víðernakortið 1.0 og allar breytingar og viðbætur falla undantekningalaust undir höfundarrétt.
3.2 Wildland Research Institute í Leeds á Englandi, sjálfstæð rannsóknarstofnun á sviði víðernkortlagningar við landfræðideild háskólans í Leeds og ÓFEIG náttúruvernd, frjáls félagasamtök með ófjárhagslegan tilgang, kt. 471118-0280, Aflagranda 35, Reykjavík hafa sameiginlega höfundarrétt að Víðernakortinu. Sá eða þeir aðilar sem höfundarréttarhafar kunna að framselja höfundarrétt sinn til, teljast höfundrréttarahafar í skilningi þessarra skilmála.
3.3 Með því að heimila viðskiptavinum niðurhal Víðernakortsins hafa höfundarréttarhafar ekki veitt neins konar framsal á höfundarrétti né heimild til að breyta kortinu á nokkurn hátt.
3.4 Brot á höfundarrétti og skilmálum þessum varða við höfundalög og áskilja höfundarréttarhafar sér allan rétt vegna slíkra brota.
3.5 Höfundarréttarhafar áskilja sér rétt til að afturkalla heimild til notkunar Víðernakortsins sem ekki er í samræmi við lög eða skilmála þessa.
3.6 Engum er heimilt að selja afnot af Víðernakortinu öðrum en höfundarréttarhöfum ef til þess kemur, eða nýta sér kortið í fjárhagslegum tilgangi, öðrum en að selja viðskiptavini sérfræðivinnslu með gögn Víðernakortsins.
4. Brot
4.1 Brot á höfundalögum lúta ákvæðum þeirra laga. Ágreiningur sem rísa kann um efni skilmála þessarra skal rekið fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.
5. Fyrirvarar
5.1 Höfundarréttarhafar bera ekki ábyrgð á röngum upplýsingum frá aðilum skv. kafla 1.3 í skilmálum þessum. Höfundarréttarhafar bera ekki ábyrgð á óþægindum eða tjóni sem orsakast beint eða óbeint vegna bilunar í tölvubúnaði og/eða hugbúnaði vefsíðunnar viðernakortid.is eða slíkum búnaði notanda, eða af öðrum orsökum, sem kunna að valda því að upplýsingar eru ekki réttar eða að notandi nái ekki að tengjast þjónustunni. Höfundarréttarhafar bera ekki ábyrgð á því tjóni sem kann að orsakast beint eða óbeint vegna galla eða bilunar í endabúnaði, tengingu við veraldarvefinn, þeim hugbúnaði sem nauðsynlegur er til tengingar við viðernakortid.is eða stýrikerfi notanda, eða af öðrum orsökum kunna að valda því að aðgerðir í vidernakort.is geta ekki farið fram eða verða með öðrum hætti en til var ætlast s.s. vegna tæknibilana, villna í gögnum eða truflana í rekstri tölvukerfa. Höfundarréttarhafar bera ekki ábyrgð á tjóni sem hlýst af vanþekkingu, misskilningi eða misnotkun notanda. Höfundarréttarhafar bera ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til utanaðkomandi atvika t.d. bilana, rangra utanaðkomandi upplýsinga o.þ.h. Höfundarréttarhafar bera ekki ábyrgð ef rekja má tjón til atvika sem stafa af náttúruhamförum, styrjöldum, verkföllum eða vegna atriða sem talin verða falla undir óviðráðanleg tilvik (force majeure).
5.2 Höfundarréttarhafar áskilja sér rétt til þess að loka á netumferð sem brýtur í bága við skilmála þessa.
5.3 Höfundarréttarhafar áskilja sér rétt til þess að ákvarða einhliða þá þjónustu sem veitt er í gegnum vidernkort.is á hverjum tíma og eru notendur hvattir til að kynna sér skilmálana eins og þeir eru á hverjum tíma.